Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 495/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 495/2022

Miðvikudaginn 10. maí 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 6. október 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 25. ágúst 2022 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2021.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2021 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 485.702 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu kröfunnar með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. ágúst 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. október 2022. Með bréfi, dags. 28. október 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Athugasemdir bárust frá kæranda 23. og 27. nóvember 2022 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. desember 2022. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda 5. desember 2022 og voru þær sendar stofnuninni til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. desember 2022. Með bréfi, dags. 9. desember 2022, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. desember 2022. Með bréfi, dags. 23. desember 2022, barst viðbótargreinargerð frá Tryggingastofnun ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. janúar 2023. Athugasemdir bárust frá kæranda 18., 25., 31. janúar og 2. febrúar 2023 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. febrúar 2023. Athugasemdir bárust frá kæranda 6. og 7. febrúar 2023 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. febrúar 2023. Athugasemdir frá kæranda bárust 19. febrúar 2023. Með bréfi, dags. 21. febrúar 2023, barst viðbótargreinargerð frá Tryggingastofnun ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. febrúar 2023. Athugasemdir bárust frá kæranda 26. febrúar, 8., 13. og 17. mars 2023 og voru þær sendar stofnuninni með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. mars 2023. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að Tryggingastofnun hafi gert óréttmætar rekstrarfjárkröfur á kæranda með þvættingi við útreikninga örorkubóta.

Þess sé krafist að úrskurðað verði að Tryggingastofnun skuli svara erindi kæranda frá 30. ágúst 2022 og auk þess að stofnunin gefi upp nafn þess starfsmanns sem beri ábyrgð á endurútreikningi tekjutengdra bóta ársins 2021.

Í öðru lagi sé krafist að úrskurðað verði að Tryggingastofnun verði gert að svara erindum frá 25. ágúst og 25. september 2022 og að stofnunin svari hvernig krafa að fjárhæð 3.491.989 kr. sé tilkomin fyrir skatta. Jafnframt vilji kærandi fá tilvísun til lagaheimilda fyrir því að leggja staðgreiðslu á hana og til að gera endurkröfu á hana. Kærandi spyr hvort hann eigi rétt á því að sækja um niðurfellingu umræddrar skuldar og hvaða ákvæði í reglugerð nr. 598/2009 myndi þann rétt. Farið sé fram á rökstuðning með tilvísun til heimilda varðandi það að skuld sem ekki hafi verið felld niður geti verið tekjur.

Í þriðja lagi sé krafist að úrskurðað verði um eftirfarandi atriði.

Samkvæmt lögum um almannatryggingar skuli ríkissjóður kosta rekstur Tryggingastofnunar. Gögn málsins sýni að 1.592.718 kr. hafi verið innheimtar með óréttmætum og röngum útreikningum. Með tilvísunum í skýringu Tryggingastofnunar á síbrotum á upplýsinga- og stjórnsýslulögum í máli nr. 224/2022, á hegningarlagabrotum í útreikningum og að „Réttindasvið ohf/ehf=Tryggingastofnun“ sé verktaki sem rekinn sé af þjónustugjöldum frá bótaþegum í formi ofskerðinga. Farið sé fram á að stofnuninni verði gert óheimilt að endurreikna bætur eða krefja um endurgreiðslu á svokölluðum ofgreiddum bótum þar sem klárlega sé um að ræða rekstrarfjárkröfur á kæranda. Farið sé fram á að úrskurðarnefndin úrskurði í samræmi við 19. gr. almennra hegningarlaga að endurreikningar bóta og endurkröfur samkvæmt þeim skuli óheimilar vegna áranna 2020 og 2021. Endurreiknaður bótaréttur skuli vera grunnbótaréttur eða bótaréttur skuli reiknaður með sama hætti og gert hafi verið fyrir gildistöku laga nr. 100/2007 um almannatryggingar og greiðast út samkvæmt því sem þá hafi tíðkast.

Samkvæmt endurreikningi og uppgjöri tekjutengdra greiðslna ársins 2021, dags. 25. ágúst 2022, hafi heildargreiðslur á árinu 2021 átt að vera 2.770.143 kr. Heildargreiðslur ársins hafi verið um 1.800.000 kr. miðað við 12 greiðsluskjöl. Samkvæmt greiðsluskjali októbermánaðar, hafi heildargreiðslur verið komnar í rúmlega 1.600.000 kr. en engin greiðsluskjöl liggi fyrir vegna nóvember og desember. Aldrei hafi verið greitt eftir þessum bótarétti. Kæranda minni að um 550.000 kr. hafi verið teknar upp í endurgreiðslukröfu en með skatti ætti þetta að hafa verið um það bil 730.000-740.000 kr. og því vanti um 500.000 kr. samkvæmt þessum bótarétti. Hér gæti verið um að ræða fjárdrátt eða bótasvik. Svo virðist sem skattur hafi verið lagður á greidda endurkröfu, þrátt fyrir að skattur hafi verið reiknaður á bæturnar sem teknar hafi verið upp í kröfuna. Sé það rétt þá séu endurkröfurnar tvískattlagðar með staðgreiðslu.

Í framangreindu bréfi sé fjallað um endurreiknuð réttindi. Sú fjárhæð hafi verið fengin með því að draga uppbót eða eingreiðslu sem skert hafi verið úr 100.745 kr. í 17.969 kr. Talan 17.969 kr. sé skert eingreiðsla sem ætti því að teljast vera tekjur en hafi ekki verið greidd. Samkvæmt þessu hafi bótarétturinn verið 3.391.457 kr. en áður hafi þessi fjárhæð verið greidd. Mismunardálkurinn ætti að sýna að 3.373.488 kr. hafi vantað á að kæranda hafi verið greiddar þær bætur sem hann hafi átt að fá. Á greiðsluyfirliti fyrir október hafi heildarbótagreiðslur til kæranda verið 1.643.789 kr. Bótarétturinn samkvæmt þessu sé 3.391.470 kr. vegna ársins 2021. Munurinn sé 1.747.681 kr. sem Tryggingastofnun hefði átt að greiða kæranda vegna uppgjörs. Fjárhæð 2.770.143 kr. hafi aldrei verið greidd.

Þar sem fjallað sé um mismun í bréfinu séu greiðslur, sem hafi aldrei verið inntar af hendi, dregnar frá endurreiknuðum bótarétti. Þar sé mismunur upp á 621.314 kr. sem sé munurinn á bótagreiðslum sem hafi aldrei verið greiddar.

Í bréfinu komi fram að staðgreiðsla skatta hafi verið 1.107.016 kr. Í bréfinu sé skuld eftir skatta krafa um endurgreiðslu fyrir skatta. Þá verði skuldin að sjálfsögðu ógreidd þótt tekjuskattur sé innheimtur vegna hennar. Kærandi spyr hvað mætti kalla skattlagningu ef ógreidd skuld sé skattlögð í samræmi við þær tekjur sem þurfi til að greiða hana. Skilji kærandi rétt þá skuli staðgreiðsla skatta koma sem greiðsla inn á þessa skuld sem rekstrarfjárframlag frá kæranda til Tryggingastofnunar.

Framangreind krafa sé rakalaus og klárlega röng, um sé að ræða skattheimtu þar sem engar greiðslur eða tekjur hafi legið henni til grundvallar.

Kærandi spyr hvenær tekjuáætlun á árinu 2021 hafi verið gerð, af hvaða tilefni og hver hafi gert hana. Muni kærandi rétt þá skýri tilkoma hennar að greiðsluskjal hafi ekki verið gert fyrir desember 2021 þar sem þá hafi engar bótagreiðslur verið greiddar. Tekjuáætlunin sjálf sé fyrir blandaða kennitölu en hún sé það ekki lengur og þess vegna séu engar forsendur til að gera ráð fyrir hagnaði af atvinnustarfsemi. Þetta sé því stolin tekjuáætlun frá fyrri tíð.

Allar bótagreiðslur ársins hafi verið reiknaðar út frá áætluðum tekjum fyrir allt árið. Þar sem bótaréttur reiknist afturvirkt sé enginn bótaréttur samkvæmt B-tekjuáætlun um áramótin 2021 og 2022 fyrir allt árið 2021. Staðgreiðslukerfið stoppi um áramót og þá séu allar upplýsingar sem skipta máli þar. Þessi ofsköttunarregla og B-tekjuáætlun hafi leitt til þess að enginn bótaréttur hafi verið fyrir árið [2021] en samt hafi einhver bótaréttur verið til staðar. Engar skattskyldar tekjur hafi verið í framangreindri tekjuáætlun og þess vegna geti hún ekki haft áhrif á bótagreiðslur.

Bótagreiðslur hafi ekki verið neinar vegna skerðinga með óskattskyldum tekjum sem notaðar hafi verið sem forsendur bótaútreikninganna sem fáist ekki staðist. Í samanburði greiðslna og réttinda sjáist annmarkar hinnar „almennu ofsköttunarreglu“. Líklega séu greiðsluskjöl ellefu talsins og ekkert þeirra hljóði upp á 17.989 kr. eða greiðslu af þeim höfuðstól, en þetta sé þá bótaréttur desembermánaðar þegar ekkert hafi verið greitt. Ekkert sé í tekjuáætluninni sem samræmist þessu og ekkert sé í staðgreiðsluskrá sem staðfesti þetta. Spurt er hvar skattaupplýsingarnar séu sem lög kveði á um að nota skuli í þessu samhengi. Samkvæmt útreikningum kæranda hafi bótaréttur ársins 2022 í árslok verið 455.040 kr. út frá greiðsluskjali janúarmánaðar það ár. Þetta sé bótaréttur á mánaðargrunni reiknaður út frá bótarétti síðasta mánaðar. Samkvæmt þessu hefði bótaréttur desembermánaðar 2021 átt að vera sá sami og hann hafi verið í janúar þar sem báðir bótaréttirnir hafi átt að reiknast út frá sömu tekjuáætluninni. Samkvæmt þessu hafi kærandi átt 3.973.000 kr. inni hjá Tryggingastofnun.

Varðandi afdreginnar staðgreiðslu sjáist að greiðslan sé ekki réttindi heldur peningar. Persónuafsláttur hafi ekki verið tekinn með í þessari peningakröfu. Samkvæmt útreikningi kæranda hafi staðgreiðslan verið 43,7%. Kærandi geri athugasemdir við það að ef Tryggingastofnun vanti rekstrarfé hvort hún geti hækkað og þurfi ekki að taka tillit til frítekjumarksins á staðgreiðsluna. Samkvæmt útreikningum kæranda ætti staðgreiðslan að vera um 487.000 kr. Þetta geti ekki verið staðgreiðsla.

Varðandi endurgreidda áður afdregna staðgreiðslu sé staðgreiðsla ekki réttindi heldur peningar. Þar sem ekkert hafi verið greitt af bótaréttinum, hafi engin staðgreiðsla verið tekin. Í niðurstöðu endurreikninga komi fram 1.899.271 kr. sem ætti að vera peningur en ekki réttindi.

Varðandi áður myndaðar kröfur vegna ársins 2021 hafi ekki verið getið um hvaða krafa það hafi verið en hún virðist staðgreiðsluskyld. Sé krafan afleiðing ofsköttunar Tryggingastofnunar á árinu 2019 og brota verktakans gegn jafnræðisreglum skattalaga sé skiljanlegt að verktakinn vilji ekki deila ávinningnum með eiganda kröfunnar. Í því efni virðist löggjafinn ekki hafa gætt þess að hin „almenna ofsköttunarregla” samræmist illa skattalögum, bókhaldslögum, stjórnsýslulögum og því að hún geti gefið skerðingaheimildir vegna atvinnutekna upp á „3x38.35%“. Þetta samræmist illa markmiðum laga um almannatryggingar að skerða bætur vegna atvinnutekna um allt að 115%, með A-bótaútreikningum og nota samhliða B-bótaútreikninga til að skuldsetja og búa til endurkröfur með, samhliða því að fullnýta A-bótaréttinn til skerðinga. Það samræmist illa markmiðum laganna eða útvega sér rekstrartekjur með töku beinna skatta.

Varðandi innheimtu 485.702 kr. ofgreiðslu. Með hliðsjón af því að höfuðstóllinn sem reiknaður sé sem peningar, þótt hann sé réttindi, sé hér um að ræða kröfu um rekstrarfé til Tryggingastofnunar. Kæranda hafi verið bent á að hann eigi rétt á að sækja um niðurfellingu hennar með skilyrðum samkvæmt reglugerð nr. 598/2009.

Með vísun til framangreinds telji kærandi sig hafa sýnt fram á að stofnunin hafi búið til rekstrarfjárkröfu á kæranda vegna þátttöku hans á vinnumarkaði með misnotkun á heimildum til bótaskerðinga til að krefja hann um rekstrarfé að fjárhæð 1.592.718 kr. Upphæðin samanstandi af 487.702 kr. sem sé ekki rétt og staðgreiðslukröfu á 1.107.016 kr. út á greiðslu sem hafi aldrei verið innt af hendi. Samkvæmt greiðsluseðlum hafi greiðslur verið innan við 2.500.000 kr., bótarétturinn sem hafi átt að greiða hafi verið rúmar 2.700.000 kr. en endanlega reiknaður bótaréttur hafi verið tæplega 3.400.000 kr. en samt hafi myndast endurgreiðslukrafa.

Kærandi telji að úrskurðarnefndin geti bent á lagaákvæði sem banni afdráttarlaust að fjármagnstekjur geti verið bótagreiðslur. Sé svo þá sé heimilt (skylt) að líta á þær sem bótatekjur. Nú sé kærandi að mestu hættur atvinnuþátttöku en samt kosti hann rekstur á verktaka Tryggingastofnunar.

Farið sé fram á að úrskurðað verði um að hvorki sé heimilt að nota verktaka til að reka Tryggingastofnun né að láta bótaþega á vinnumarkaði kosta rekstur stofnunarinnar. Það sé heldur hvergi að finna heimildir í lögum um að Tryggingastofnun sé heimilt að leggja á sérstaka skatta til að fjármagna rekstur sinn eða verktaka sinna.

Í athugasemdum kæranda frá 23. nóvember 2022 kemur fram að samkvæmt skattagögnum hafi hann aldrei fengið þá fjárhæð sem hann sé krafinn um. Samkvæmt skattauppgjöri hafi greiðslur frá Tryggingastofnun verið tæplega 18.000 kr. Þess sé einnig getið að greiðsluseðill vegna bótagreiðslna ársins 2021 hafi ekki verið gefinn út, eða hafi ekki verið gefinn út þegar skattagögn hafi verið gerð.

Í athugasemdum kæranda, dags. 5. desember 2022, kemur fram að Tryggingastofnun sé kærð vegna brota á stjórnsýslulögum og lögum um persónuvernd með því að svara ekki fyrirspurn frá 13. nóvember 2022 og hafa ekki brugðist við ítrekunum á henni.

Í athugasemdum kæranda frá 18. janúar 2023 kemur meðal annars fram að mikið misræmi sé í gögnum Tryggingastofnunar. Stofnuninni sé einungis heimilt að taka 20% bótaréttar upp í endurkröfu. Þess sé krafist að úrskurðarnefndin taki eftirfarandi forsendur til greina.

Það eigi sér ekki lagastoð að áætla skuldir eða leggja staðgreiðslu á skuldir eins og gögn sýni að gert hafi verið. Tryggingastofnun sé óheimilt að nota önnur gögn en þau sem séu staðfest frá Skattinum við bótaútreikninga og Skattinum sé heimilt að nota við álagningu staðgreiðslu.

Áætlanir skuli falla úr gildi og skuli víkja fyrir raunverulegum gögnum sem reiknað sé með réttum og raunverulegum tölum eftir að þær séu komnar fram. Því sé óheimilt að nota áætlanir við uppgjör. Nefndinni beri að líta fram hjá öllu slíku þar sem slíkt eigi sér hvorki stoð í lögum um almannatryggingar né staðgreiðslulögum. Tryggingastofnun beri að nota ónýttan persónuafslátt og rétta álagningarprósentu til að reikna staðgreiðslu. Þar sem það hafi átt að gera árið 2021 en ekki 2023 beri stofnunni að taka á sig sektir og vanskilakostnað.

Leiðréttingin eigi að koma fram í skattagögnum vegna ársins 2023 og teljast til skattauppgjörs 2024 vegna tekna 2021 í samræmi við lög. Stofnuninni sé heimilt að taka 678.000 kr. upp í ofgreiðslukröfuna sem nefnd sé og skila því sem eftir sé á bótareikning kæranda í samræmi við 16. gr. laga um almannatryggingar.

Farið sé fram á að nefndin úrskurði um að ekki séu efni til að draga upplýsingar úr skattskýrslu ársins 2022 og launamiða 2022 í efa. Því verði að telja að 3.373.761 kr. séu ógreiddar af örorkubótum kæranda vegna bótaársins 2021 og að stofnuninni beri að standa skil á þeim.

Þess sé krafist að úrskurðað verði að vegna margvíslegra hegningarlagabrota og heimildarlausra lagfæringa á bótarétti kæranda að gögn verði áframsend til lögreglu eða fjármálaeftirlits, eftir því sem við eigi.

Varðandi tekjuáætlun sem Tryggingastofnun hafi búið til úr staðgreiðslugögnum vegna ársins 2019, sé sagt að bótaþegi beri ábyrgð á tekjuáætlun sinni þó svo að stofnunin breyti henni, án hans vitundar eða samþykkis. Hið rétta sé að tekjuáætlun þessi hafi verið leiðrétt og kærandi hafi skipt henni út fyrir raunhæfa áætlun. Henni hafi svo verið skipt inn aftur, án réttmæts tilefnis í lok árs 2021 og ekki hafi verið skeytt neitt um mótmæli kæranda. Kærandi hafi ákveðið að aðhafast ekkert fyrst en síðan hafi hann leiðrétt áætlunina. Þar sem um áætlun sé að ræða hafi hún ekki áhrif við endurreikninga eða uppgjör þar sem þá beri að nota staðgreiðsluupplýsingar. Þetta framtak hafi gert þeim sem að þessu hafi staðið mögulegt að stela desemberuppbótinni.

Tryggingastofnun hafi gert breytingu 1. nóvember 2021. Nokkru áður hafi kærandi gert breytingu þar sem tekjum og reiknuðu endurgjaldi hafi verið breytt í samræmi við það sem þá hafi komið í ljós að það mundi verða. Tryggingastofnun hafi bætt við öðru reiknuðu endurgjaldi og virðast þær upplýsingar hafa verið sóttar í gögn frá 2019. Muni kærandi rétt, hafi engu verið breytt í október öðru en því að áætlaðar tekjur nóvember- og desembermánaða hafi fallið niður. Ekkert réttmætt tilefni hafi verið til aðgerða. Á þeim tíma hafi verið tekið fullt tillit til staðgreiðsluupplýsinga í staðgreiðsluskrá. Því sé alger rökleysa að halda því fram að það hafi ekki verið gert, eða að þörf hafi verið að gera það tvívegis. Svar Tryggingastofnunar gefi ekki ástæðu til annars en að ætla að þetta hafi verið tilefnislaust í þeim tilgangi að stela desemberuppbótinni.

Í tölvupósti kæranda frá 26. janúar 2023 kemur meðal annars fram að meginkrafan sé sú að litið skuli á skattagögn sem endanleg gögn og að uppgjöri sé talið lokið þegar Tryggingastofnun hafi gert upp í samræmi við þau.

Kærandi hafi nýverið séð bréf frá Tryggingastofnun, dags. 13. nóvember 2022, sem hann hafi ekki séð fyrr og viti ekki hvenær það hafi komið inn á „Mínar síður“. Kærandi fái ekki betur séð en að um hreinræktuð auðgunarbrot sé að ræða þar sem búnar séu til skuldir með notkun gagna sem ekkert hlutverk geti haft annað en að misnota bráðabirgðaútreikninga til þess að stofna til skulda, sem svo sé reynt að halda eftir þegar endanlegir útreikningar séu gerðir.

Í athugasemdum kæranda frá 31. janúar 2023 kemur meðal annars fram að Tryggingastofnun hafi staðhæft að hafa svarað fyrirspurnum kæranda þann 5. og 9. desember 2022. Kærandi hafi ekki fengið nein gögn frá stofnuninni með þessum dagsetningum. Raunar ættu gögnin ekki að varða mál nr. 445/2020 heldur annað mál, en hlutunum hafi verið slegið saman. Mál nr. 445/2020 varði eingöngu gildi gagna sem séu opinber gögn, en ekki um það hvernig þau hafi verið gerð. Það eina sem Tryggingastofnun ætti að þurfa að svara sé hver endanlegur bótaréttur ársins 2021 hafi verið. Síðari kæran byggi á því að ef bótaréttur hafi verið árið 2020 þá hljóti að hafa verið fullskert ef bótarétturinn 2021 hafi verið 0 kr. og ekki eftirstöðvar af bótarétti ársins 2020 eins og sagt sé. Það ætti því að vera tæknilega ómögulegt að ofgreiðslukrafa hafi myndast eftir að bætur hafi verið felldar niður.

Bæði málin eigi það sameiginlegt að í þeim sé skjalafals og notkun falsaðra gagna sem byggi á notkun ólögmætra upplýsinga og fölsun á löglegum skjölum og greiðslugögnum. Það sem liggi fyrir sé að ekki sé efni til að ætla að skattaupplýsingar og framtalsupplýsingar hafi verið byggðar á notkun raunverulegra greiðslu -og skattagagna.

Kærandi telji að Tryggingastofnun hafi komið til móts við kröfu um framvísun umbeðinna gagna og sé sáttur við það hvernig Tryggingastofnun hafi komið til móts við stjórnsýslu og upplýsingalög.

Í tölvupóstum 2. febrúar 2023 kemur meðal annars fram ekki hafi verið gerð grein fyrir því hvers vegna greiðsluseðil vegna desembermánaðar vanti.

Hugsanlega hafi verið greitt eftir allt að sex bótaréttum á árinu 2021. Gögnin bendi til þess að bókhald Tryggingastofnunar sé að minnsta kosti tvöfalt vegna atvinnuþátttöku kæranda. Kærandi óski þess að gerðar verði úrbætur á greinargerð og útskýrt hvers vegna svo sé. Farið sé fram á að málsmeðferð verði frestað uns fullnægjandi úrbætur hafi verið gerðar á greinargerð stofnunarinnar.

Í tölvupósti kæranda 19. febrúar 2023 kemur fram meðal annars fram að í greinargerð Tryggingastofnunar, dags. 25. október 2022, sé því haldið fram að engar athugasemdir hafi verið gerðar við tekjuáætlun stofnunarinnar vegna ársins 2021 sem hafi alfarið verið byggð á upplýsingum úr skattagögnum ársins 2019. Samhliða sé þess getið að þessi tekjuáætlun hafi verið leiðrétt 26. janúar 2021. Með hliðsjón af því þá hafi tekjuáætlun verið byggð á grunni gagna frá 2019 aldrei verið samþykkt, þó svo að henni hafi ekki verið mótmælt formlega.

Í greinargerðinni sé því haldið fram að tekjuáætlun hafi verið leiðrétt í samræmi við staðgreiðsluskrá skattsins, en þess hafi ekki verið getið að hún hafi einnig verið fölsuð með skattaupplýsingum frá árinu 2019. Þetta sé réttlætt með því að staðhæfa að kærandi beri fulla ábyrgð á tekjuáætluninni. Það hafi verið mynduð endurkrafa upp á 2.384.073 kr. áður en ein einasta króna hafði verið greidd í bætur vegna ársins 2021. Þetta sé kallað áður myndaðar kröfur vegna breytinga á árinu 2021. Þetta hafi verið gert í lok desember 2020 sem hafi ákvarðað breytingar á árinu 2021.

Í máli þessu sé notast við óskilgreint og óskiljanlegt hugtak sem sé oft og tíðum margreiknað inn í tekjuáætlunina og sé kallað „reiknað endurgjald“ og teljist til launa í tekjuáætlun. Með þessu móti sé búin til tvísköttun á reiknað endurgjald. Ekki sé annað að sjá en að „endurreiknuðum réttindum“ og réttindum samkvæmt skattframtali sé svo blandað saman þannig út úr því komi um það bil skerðing upp á 5.400.000 kr. Þetta sé hrein rekstrarfjárkrafa og hrein skattlagning.

Í gögnum frá ágúst 2022 komi fram að heildargreiðslur til kæranda á árinu 2021 hafi verið 2.770.143 kr. Raunverulegar greiðslur samkvæmt greiðsluyfirlitum hafi verið 1.926.934 kr. og heildarbótaréttur ársins sé sagður hafa verið 3.391.457 kr., munurinn sé 1.464.523 kr. Munurinn á bótarétti og þeim bótum sem haldið sé fram að hafi verið greiddar sé 621.314. kr.  Munurinn á milli þeirra bóta sem haldið sé fram að hafi verið greiddar og þeirra sem raunverulega hafi verið greiddar sé 843.209 kr.

Heildarbótaréttur ársins 2021 sé sagður hafa verið 3.391.457 kr. Greiddar bætur hafi verið 1.926.934 kr. og afdregin staðgreiðsla hafi verið 63.683 kr. Kærandi átti sig ekki á að afdregin staðgreiðsla hafi átt að vera kr. 621.314 að viðbættum 455.702 kr., staðgreiðslan sé þá 1.077.016 kr. Reikningsskekkjan sé 843.209 kr. til viðbótar. Samtals geri þessi rekstrarfjárkrafa 2.154.032 kr. sem sé fjárdráttur undir því yfirskyni að taka af staðgreiðslu ásamt falinni kröfu um þjónustugjöld. Hér séu taldar saman 3.618.555 kr. rekstrarfjárkröfur. Þó muni margt vantalið þar sem rekstrarfjárkröfurnar sem kunni að vera ótaldar gætu hækkað þennan reikning í allt að 6.500.000 kr.

Rétt ætti að vera 3.391.457 kr. bótaréttur ársins 2021, 1.926.934 kr. í greiddar bætur og 1.464.523 kr. í ógreiddar bætur. Miðað við 31,45% staðgreiðslu ætti að skila kr. 460.592 í staðgreiðslu en greiða kæranda 1.003.930 kr. sem þá séu eftir. Greiðslurnar eigi að telja fram til skatts á því ári sem þær komi til framkvæmda, þó svo að þær ættu að hafa komið til framkvæmda árið 2021. Ekki sé annað að sjá en Tryggingastofnun hafi stolið endurgreiddum skatti vegna ársins 2021. Enn fremur sé vísað í staðgreiðsluskrá en hún sýni að skerðingar Tryggingastofnunar hafi orðið þess valdandi að kærandi hafi farið langt undir lágmarksframfærslumörk í ársbyrjun 2022. Með hliðsjón af því sé farið fram á að frá 1. janúar 2022 teljist allar ofgreiðslukröfur greiddar að fullu og falli þá eftirstöðvar þeirra niður.

Lagt sé til að kæranda verði greitt með þeim hætti sem rétt sé, en málinu verði vísað áfram til lögreglu til frekari rannsóknar. Enda hafi málatilbúnaður allur verið færður úr skorðum með því að sameina tvær óskyldar kærur í eitt mál eins og gert hafi verið í máli nr. 445/2020 og málið látið snúast um það eina sem úrskurðarnefndin virðist viðurkenna að allar bætur séu ofgreiddar frá Tryggingastofnun.

Í tölvupósti kæranda 26. febrúar 2023 kemur fram að 6. febrúar 2023 hafi verið farið fram á að greiðsluseðill vegna desember 2021 væri gerður. Lög mæli fyrir um að greiðslur skuli vera tólf og að tilgreint skuli inn á hvaða reikning hafi verið greitt. Einnig hafi verið farið fram á skýringar á því til hvers greiðsluseðlar með neikvæðum bótarétti hafi verið gerðir og hvers vegna ekki sé tilgreint með lögmætum hætti inn á hvaða reikning hafi verið greitt.

Í athugasemdum kæranda frá 8. mars 2023 kemur meðal annars fram að lögum samkvæmt skuli stofnunin gera greiðsluseðla fyrir hvern mánuð ársins sem tilgreini inn á hvaða bótareikning bætur hafi verið greiddar. Synjun stofnunarinnar hafi enga lagastoð, þótt engar bætur hafi verið greiddar í desember 2021. Einnig sé þess getið að tveir greiðsluseðlar séu ekki í samræmi við lög þar sem þeir tilgreini ekki inn á hvaða reining hafi verið greitt. Með hliðsjón af því virðist stofnunin hafa greitt inn á annan reikning en bótareikning kæranda sem hafi verið í eigu einhvers annars.

Með hliðsjón af þessu beri nefndinni lagaleg skylda til að fylgja því eftir að greiðsluseðill þessi verði gerður í samræmi við lög, þrátt fyrir að engar greiðslur hafi verið inntar af hendi til kæranda í desember. Lög um desemberuppbót geri einnig kröfu um að greiðsluseðill sé gerður þar sem nota eigi bótagreiðslur undangenginna mánaða til að ákvarða hver hún eigi að vera en ekki einvörðungu bótarétt eins mánaðar eins og gert hafi verið. Þar sem ekki verði séð að nefndin taki þau orð kæranda gild að ófrávíkjanleg lagaskylda sé að gera umræddan greiðsluseðil og hann hafi afgerandi vægi varðandi þau atriði sem hafi verið kærð, hafi kærandi ákveðið að senda kvörtun til umboðsmanns Alþingis.

Í athugasemdum kæranda frá 17. mars 2023 er meðal annars fjallað um skjalafals og fjárdrátt, auk umfjöllunar um greiðsluseðla og gerð tekjuáætlana. Til viðbótar og vara sé farið fram á að vextir og kostnaður vegna málarekstursins verði greiddur af Tryggingastofnun.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta ársins 2021.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Greiðsluþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna og vistunarframlags, en þar komi fram að greiðsluþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Örorkulífeyrir sé greiddur á grundvelli 18. gr. laga um almannatryggingar. Fullur örorku- og endurhæfingarlífeyrir hafi verið 478.344 kr. á ári eða 49.840 kr. á mánuði á árinu 2021, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 1333/2020 um fjárhæðir bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2021. Samkvæmt 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar skuli skerða örorkulífeyri ef tekjur örorkulífeyrisþega samkvæmt 2. og 3. mgr. 16. gr. séu hærri en 2.575.220 kr. á ári, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 1332/2020 um fjárhæðir frítekjumarka (tekjumarka) almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2021. Skerðingin hafi verið 25% á árinu 2021, sbr. þágildandi 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar.

Aldurstengd örorkuuppbót og tekjutrygging sé greidd örorkulífeyrisþegum á grundvelli 21. og 22. gr. laga um almannatryggingar. Um skerðingu á aldurstengdri örorkuuppbót vegna tekna gildi sömu reglur og um skerðingu á örorkulífeyri vegna tekna, sbr. 2. málslið 1. mgr. 21. gr. laga um almannatryggingar. Þá miðast fjárhæð aldurstengdu uppbótarinnar við þann aldur sem einstaklingur hafi í fyrsta sinn verið metinn 75% öryrki samkvæmt 1. og 2. mgr. 18. gr. eða uppfyllti skilyrði 7. gr. laga um félagslega aðstoð, sbr. 3. málslið 1. mgr. 21. gr. laganna. Kærandi hafi verið 36 ára er hann hafi fyrst uppfyllt skilyrði til greiðslu endurhæfingar- eða örorkulífeyris og hafi því átt rétt á 35% af fullri aldurstengdri örorkuuppbót, sbr. 2. mgr. 21. gr. laga um almannatryggingar. Full aldurstengd örorkuuppbót hafi verið 52.631 kr. á árinu 2021, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 1333/2020 en 35% af þeirri fjárhæð er 18.421 kr.

Full tekjutrygging hafi verið 1.915.248 kr. á ári á árinu 2021 eða 159.604 kr. á mánuði, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 1333/2020. Hafi lífeyrisþegi tekjur samkvæmt 2. og 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar skuli skerða tekjutrygginguna um 38,35% þeirra tekna uns hún falli niður, sbr. 3. mgr. 22. gr. laga um almannatryggingar. Greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum undir 328.800 kr., sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 1332/2020, skuli þó ekki skerða tekjutryggingu, sbr. 3. málslið 3. mgr. 22. gr. laga um almannatryggingar. Samanlögð skerðing örorkulífeyris og tekjutryggingar skuli þó aldrei fara umfram 38,35% af tekjum samkvæmt 4. mgr. 22. gr. laganna. Þá skuli örorkulífeyrisþegar hafa 1.315.200 kr. frítekjumark á ári eða 109.600 kr. á mánuði vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar, sbr. 14. tölulið bráðabirgðaákvæðis í lögum um almannatryggingar.

Heimilisuppbót sé greidd á grundvelli 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Full heimilisuppbót hafi verið 647.376 kr. á árinu 2021 eða 53.948 kr. á mánuði, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 1333/2020. Um skerðingu á heimilisuppbót vegna tekna gildi sömu reglur og um skerðingu tekjutryggingar vegna tekna, sbr. 3. mgr. 8. gr. laga um félagslega aðstoð. Heimilisuppbótin lækki um 11,9% af tekjum lífeyrisþega, sbr. 2. mgr. 8. gr. laganna.

Sérstök uppbót á lífeyri vegna framfærslu sé greidd á grundvelli 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð. Við mat á því hvort lífeyrisþegi sem fengi greidda heimilisuppbót gæti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar skyldi miða við að heildartekjur á árinu 2021 væru undir 333.258 kr. á mánuði, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 1332/2020. Til tekna hafi talist allar skattskyldar tekjur, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð sem og erlendar tekjur sem ekki séu taldar fram hér á landi, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð. Þó teljist aðeins 95% tekjutryggingar og 50% aldurstengdrar örorkuuppbótar til tekna samkvæmt 4. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri við útreikning á uppbótinni. 

Orlofs- og desemberuppbætur fyrir árið 2021 hafi verið reiknaðar og greiddar á grundvelli reglugerðar nr. 1334/2020 um eingreiðslur til lífeyrisþega árið 2021. Samkvæmt 2. gr. reglugerðarinnar skuli orlofsuppbætur til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega nema 20% af fjárhæð tekjutryggingar og heimilisuppbótar, miðað við 1/12 af greiðslurétti lífeyrisþega síðustu 12 mánuði fyrir greiðslu uppbótarinnar (tekjutrygging kæranda hafi verið 154.664 kr. á mánuði á árinu 2020 og heimilisuppbót 52.278 kr.). Desemberuppbót til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega skuli nema 30% af fjárhæð tekjutryggingar og heimilisuppbótar. Fjárhæðin reiknist miðað við 1/12 af greiðslurétti lífeyrisþega á árinu 2021.

Lífeyrisréttindi og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun séu skattskyldar samkvæmt A-lið 7. gr. laga um tekjuskatt. Tryggingastofnun beri því skylda til að draga staðgreiðslu skatta af réttindunum og skila til Skattsins í samræmi við ákvæði laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Í lok árs 2020 hafi Tryggingastofnun gert tillögu að tekjuáætlun fyrir árið 2021 þar sem gert hafi verið ráð fyrir atvinnutekjum að fjárhæð 6.942.504 kr. (3.547.236 kr. tekjur af atvinnurekstri, 3.536.736 kr. í reiknað endurgjald og 141.468 kr. í iðgjald í lífeyrissjóð til frádráttar) og 3.132 kr. í fjármagnstekjur. Tekjuáætlunin hafi verið birt á „Mínum síðum“ kæranda í desember en skjal hafi verið útbúið og birt á „Mínum síðum“ þann 18. janúar 2021.

Tillaga að tekjuáætlun hafi verið byggð á síðustu tekjuáætlun vegna ársins [2020], staðgreiðsluskrá Skattsins á árinu [2020] ásamt síðasta skattframtali, þ.e. framtali vegna tekna ársins 2019. Skráðar tekjur í tillögu að tekjuáætlun hafi verið yfir tekjumörkum örorkulífeyris og tengdra greiðslna á árinu 2021 og því hafi ekki verið greiðsluréttur til staðar þann 1. janúar 2021.

Þann 18. janúar 2021 hafi kærandi skilaði inn nýrri tekjuáætlun. Í henni hafi hann gert ráð fyrir að atvinnutekjur yrðu 1.308.000 kr. (reiknað endurgjald og iðgjald í lífeyrissjóð til frádráttar hafi því verið skráð 4% af þeirri fjárhæð eða 52.320 kr.) og óbreyttar fjármagnstekjur. Réttindi samkvæmt þeirri tekjuáætlun hafi verið reiknuð þann 26. janúar 2021.

Í mars 2021 hafi kærandi sótt um heimilisuppbót sem hafi verið samþykkt. Réttindi hafi því verið reiknuð að nýju 24. mars 2021.

Greitt hafi verið samkvæmt útreikningi í janúar fyrir mánuðina janúar til mars 2021. Við nýjan útreikning í mars hafi heimilisuppbót bæst við sem hafi verið greidd afturvirkt fyrir mánuðina janúar til mars. Greidd réttindi miðað við þá útreikninga út ágúst 2021 hafi verið samtals 2.286.324 kr.

Kæranda hafi þann 12. ágúst 2021 verið tilkynnt um leiðrétta tekjuáætlun vegna misræmis á milli tekjuáætlunar og upplýsinga um tekjur kæranda í staðgreiðsluskrá Skattsins. Samkvæmt staðgreiðsluskrá hafi launatekjur kæranda verið 113.680 kr. í apríl, 459.378 kr. í maí og 309.778 kr. í júní. Við leiðréttinguna hafi Tryggingastofnun gert ráð fyrir að tekjur kæranda yrðu 309.778 kr. út árið. Atvinnutekjur samkvæmt leiðréttri tekjuáætlun hafi þannig verið samtals 3.887.525 kr. á árinu (reiknað endurgjald að fjárhæð 1.308.000 kr., laun að fjárhæð 2.741.504 kr. og 161.979 kr. iðgjald í lífeyrissjóð til frádráttar) og sömu fjármagnstekjur og áður, eða 3.132 kr. Réttindi samkvæmt þeirri tekjuáætlun hafi verið reiknuð 12. ágúst 2021.

Við þessa breytingu á tekjuáætlun hafi þegar greidd réttindi kæranda lækkað um 965.081 kr. fyrir mánuðina janúar til og með ágúst og að frádreginni endurgreiddri staðgreiðslu skatta hafi myndast krafa að fjárhæð 661.536 kr. sem hafi beðið innheimtu þar til endurreikningur og uppgjör ársins 2021 hefði farið fram.

Greitt hafi verið samkvæmt þeim útreikningum fyrir mánuðina september til nóvember 2021, samtals að fjárhæð 483.819 kr.

Þann 12. október 2021 hafi kærandi sent inn nýja tekjuáætlun á „Mínar síður“. Tryggingastofnun hafi ekki samþykkt hana að fullu leyti og hafi ákveðið að halda inni reiknuðu endurgjaldi þar sem reiknað endurgjald hafi komið fram í staðgreiðsluskrá Skattsins. Kærandi hafi gert athugasemdir við tekjuáætlunina 7. nóvember 2021 en ekki sé að sjá að stofnunin hafi tekið afstöðu til þeirra athugasemda.

Í þeirri tekjuáætlun hafi atvinnutekjur verið samtals 6.615.676 kr. (reiknað endurgjald að fjárhæð 3.468.000 kr., tekjur af atvinnurekstri að fjárhæð 2.000.000 kr., laun að fjárhæð 1.340.000 kr. og iðgjald til frádráttar að fjárhæð 192.324 kr.) og sömu fjármagnstekjur og áður eða 3.132 kr. Sú tekjuáætlun hafi verið afgreidd hjá Tryggingastofnun þann 1. nóvember 2022.

Nýr útreikningur hafi leitt til þess að enginn réttur hafi verið til staðar á árinu, að frátalinni orlofsuppbót að fjárhæð 17.969 kr. sem byggi meðal annars á réttindum vegna fyrra árs. Við það hafi myndast ofgreiðslukrafa vegna greiddra réttinda á árinu að fjárhæð 1.787.093 kr. eða 1.723.410 kr., að frádreginni endurgreiddri staðgreiðslu skatta til viðbótar við áður myndaða kröfu. Innheimta þeirrar kröfu hafi einnig beðið uppgjörs.

Við bótauppgjör ársins 2021 hafi komið í ljós að samkvæmt skattframtali hafði kærandi haft atvinnutekjur samtals að fjárhæð 1.469.822 kr. (reiknað endurgjald að fjárhæð 500.000 kr., tekjur af atvinnurekstri að fjárhæð 69.343 kr., laun að fjárhæð 958.836 kr. og iðgjald í lífeyrissjóð til frádráttar samtals að fjárhæð 58.357 kr.) og fjármagnstekjur (vexti af innistæðum) að fjárhæð 93.229 kr.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2021 hafi verið sú að kærandi hafi fengið greitt á árinu 2.770.143 kr. en hefði átt að fá greitt 3.391.457 kr. Staðgreiðsla til frádráttar hafi verið 1.107.016 kr. sem hafi leitt til skuldar til innheimtu að fjárhæð 485.702 kr.

Framkvæmdur hafi verið samanburðarútreikningur við endurreikning til að kanna hvort reglan um mánaðarskiptingu atvinnutekna kæmi betur út fyrir kæranda, sbr. 12. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Sú regla hafi ekki komið betur út fyrir kæranda og hafi því útreikningur eins og greint hafi verið frá hér að framan orðið fyrir valinu.

Varðandi greiðslur, skattkort og staðgreiðslu hafi kærandi verið skráður með 100% skattkort á árinu 2021 og persónuafsláttur hafi því verið nýttur til lækkunar á staðgreiðslu hans við greiðslu réttinda á árinu 2021. Fullur persónuafsláttur hafi verið 50.792 kr. á mánuði á árinu 2021, sbr. þágildandi A-lið 67. gr. laga um tekjuskatt.

Kærandi óski eftir því að Tryggingastofnun gefi upp nafn þess starfsmanns sem beri ábyrgð á endurreikningi og uppgjöri tekjutengdra greiðslna ársins 2021, sbr. bréf, dags. 25. ágúst 2022. Tryggingastofnun hafi nú þegar upplýst kæranda um nöfn þeirra starfsmanna sem beri ábyrgð á endurreikningi stofnunarinnar. Í bréfi til kæranda, dags. 13. október 2022, segi meðal annars:

„Í erindi þínu var óskað eftir upplýsingum um nafn og starfstitil þess starfsmanns TR sem ber ábyrgð á þessum útreikningum. Athygli er vakin á að uppgjör þitt er framkvæmt með vélrænum hætti án beinnar aðkomu starfsmanns að útreikningingum. Hins vegar í samræmi við 12. gr. laga nr. 100/2007 ber B, forstjóri Tryggingastofnunar, ábyrgð á störfum stofnunarinnar. Verkefni uppgjörs eru unnin á Réttindasviði stofnunarinnar sem lýtur framkvæmdastjórn C, framkvæmdastjóra. Málefni uppgjörs eru afgreidd innan teymis uppgjörs og forsendueftirlits en D er verkefnastjóri þess teymis.“

Rétt þyki að taka fram að álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 10652/2020 varði aðeins stjórnvaldsákvarðanir en ekki önnur erindi eða gögn. Tryggingastofnun upplýsi ávallt um nöfn þeirra sem taki stjórnvaldsákvarðanir eða beri ábyrgð á þeim, sé óskað eftir því.

Kærandi óski sérstaklega eftir upplýsingum um hvernig skuldir sem hafi myndast við útreikninga á árinu 2021 séu tilkomnar sem og skuld sem hafi myndast við uppgjör ársins. Tvær skuldir hafi myndast á árinu vegna breytinga á tekjuáætlunum. Sú fyrri þann 12. ágúst að fjárhæð 965.081 kr. og sú síðari þann 1. nóvember að fjárhæð 1.787.093 kr. Áður skiluð staðgreiðsla hafi verið dregin til baka frá Skattinum, annars vegar 303.518 kr. þann 12. ágúst og hins vegar 63.683 kr. þann 1. nóvember. Skuld sem hafi myndast á árinu hafi því samtals verið 2.384.973 kr. (965.081+1.787.093-303.518-63.683). Sú skuld hafi ekki verið innheimt og hafi runnið inn í uppgjör ársins.

Við endurreikning hafi komið í ljós að réttindi kæranda á árinu 2021 hafi átt að vera samtals 3.373.488 kr. miðað við tekjur á skattframtali. Staðgreiðsla hafi verið dregin af þeirri fjárhæð samtals 1.474.217 kr. og þeirri fjárhæð hafi verið skilað til Skattsins. Þar af hafi 227.448 kr. farið í fyrsta skattþrep, 630.829 kr. í annað skattþrep og 2.515.211 kr. í þriðja skattþrep, sbr. þágildandi 9. gr. laga nr. 45/1987. Við útreikning á staðgreiðslu hafi verið miðað við að aðrar tekjur kæranda væru 121.570 kr. og hafi verið reiknað með að þær færu í fyrsta staðgreiðsluþrep. Sú fjárhæð miðast við staðgreiðsluskyldar tekjur, þ.e. laun og reiknað endurgjald, sem fram komu á skattframtali vegna ársins 2021.

Endurreikningur Tryggingastofnunar hafi verið framkvæmdur að lokinni álagningu hjá Skattinum vegna ársins 2021 og því hafi ekki verið heimilt að nýta persónuafslátt til lækkunar á staðgreiðslu sem Tryggingastofnun hafi borið að draga af réttindum sem hafi myndast að nýju við endurreikning. Skuld sem hafi myndast við uppgjör hafi því í raun verið staðgreiðsla sem Tryggingastofnun hafi borið að skila til Skattsins samkvæmt lögum um tekjuskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda.

Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum hafi persónuafsláttur verið nýttur við álagningu opinberra gjalda vegna ársins 2021 og hafi hann verið færður á móti kröfum vegna skattskila sem hefðu komið til innheimtu ef ekki hefði verið fyrir möguleika á að nýta þann persónuafslátt sem stofnunin hafi bakfært á árinu 2021. Kæranda hafi verið bent á að hægt væri að fá nánari upplýsingar hjá Skattinum um niðurstöðu álagningar. Tryggingastofnun hafi upplýst Skattinn um nýjan skattstofn með nýjum launamiða vegna ársins 2021 þann 28. september 2022.

Kærandi hafi óskað eftir upplýsingum um það hvort hann ætti rétt á að sækja um niðurfellingu skuldarinnar. Rétt sé að fram komi að kærandi eigi rétt á því að sækja um niðurfellingu skuldarinnar á grundvelli 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Hægt sé að gera það á „Mínum síðum“ á tr.is.

Útreikningar á árinu 2021, endurreikningur, greiðslur og staðgreiðsla hafi verið útskýrð. Framkvæmdin sé venju og lögum samkvæmt. Að virtum öllum gögnum málsins, meðal annars viðbótargögnum frá kæranda, mótteknum 24. nóvember og 6. desember 2022, telji stofnunin ekki ástæðu til þess að endurskoða fyrri ákvörðun sína.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. desember 2022, er vísað í ósk kæranda um svar við fyrirspurn frá 13. nóvember 2022. Stofnunin hafi svarað þeirri fyrirspurn 5. desember 2022. Að öðru leyti sé vísað í fyrri greinargerð stofnunarinnar.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. febrúar 2023, kemur fram að kærandi hafi gert ýmsar athugasemdir við fyrri greinargerð stofnunarinnar og framkvæmd greiðslna til hans vegna ársins 2021. Hann óski meðal annars eftir greiðsluseðli fyrir desembermánuð 2021. Tryggingastofnun vilji árétta að engar greiðslur hafi verið greiddar til kæranda í desember 2021 og því sé greiðsluseðill vegna þess mánaðar ekki til. Stofnunin vísi í fyrri greinargerð sína, dags. 9. desember 2022.

Kærandi óski einnig eftir skýringum á því hvers vegna það vanti greiðsluskjöl með þeim gögnum sem hafi fylgt greinargerð Tryggingastofnunar. Eins og sjá megi á greiðsluyfirliti í greinargerð stofnunarinnar hafi greiðslur og leiðréttar greiðslur vegna breyttra tekjuforsendna verið fimmtán talsins vegna ársins 2021. Öll greiðsluskjöl hafi fylgt greinargerðinni.

Kærandi fari fram á nánari útskýringu á því á hverju þær tekjuforsendur, sem hafi verið notaðar við útreikninga og endurreikninga vegna ársins 2021, hafi verið byggðar. Upplýsingar um tekjuforsendur að baki útreikningum hafi að mestu leyti komið fram í fyrri greinargerð en ástæða þyki þó til að útskýra þær nánar í ljósi athugasemda kæranda.

Við gerð tillögu Tryggingastofnunar að tekjuáætlun sé stuðst við tekjuupplýsingar úr síðustu tekjuáætlun yfirstandandi árs, hafi henni verið breytt af greiðsluþega, staðgreiðsluskrá og síðasta skattframtali. Tillaga að tekjuáætlun fyrir árið 2021, sem hafi verið útbúin í lok árs 2020, hafi gert ráð fyrir atvinnutekjum að fjárhæð 6.942.504 kr., þar af hafi tekjur af atvinnurekstri verið að fjárhæð 3.547.236 kr. Sú fjárhæð hafi verið byggð á tekjum af atvinnurekstri sem hafi verið að fjárhæð 3.196.426 kr. samkvæmt skattframtali vegna ársins 2019 sem hafi legið fyrir vorið 2020, auk vísitöluhækkana. Einnig hafi verið gert ráð fyrir reiknuðu endurgjaldi að fjárhæð 3.536.736 kr. sem hafi verið byggð á staðgreiðsluskrá vegna ársins 2020, auk vísitöluhækkana.

Tekjuáætlun, dags. 18. janúar 2021, og útreikningar hafi alfarið verið byggð á tekjuupplýsingum frá kæranda. Tryggingastofnun hafi leiðrétt þá tekjuáætlun 12. ágúst vegna misræmis á milli hennar og staðgreiðsluskrár Skattsins. Nánari útskýringar á þeim tekjuforsendum hafi komið fram í fyrri greinargerð.

Kærandi hafi sent inn nýja tekjuáætlun þann 12. október 2021 en eins og fram komi í fyrri greinargerð hafi sú tekjuáætlun ekki verið samþykkt að fullu leyti og ákveðið hafi verið að halda inni reiknuðu endurgjaldi að fjárhæð 3.468.000 kr. í samræmi við upplýsingar úr staðgreiðsluskrá á þeim tíma. Sú tekjuáætlun hafi leitt til þess að enginn réttur hafi verið til staðar á árinu og þar af leiðandi engar greiðslur greiddar í desember 2021.

Stofnunin vilji ítreka að framkvæmd útreikninga, endurreikninga, greiðslna og staðgreiðsluskila vegna greiðslna ársins 2021 til kæranda hafi verið venju og lögum samkvæmt. Að öðru leyti sé vísað til fyrri greinargerðar í málinu.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. apríl 2023, kemur fram að kærandi óski meðal annars eftir því að vextir og kostnaður vegna málareksturs hans fyrir úrskurðarnefndinni verði greiddur af Tryggingastofnun. Stofnunin vilji koma því á framfæri að ekki sé lagaheimild fyrir greiðslu málskostnaðar vegna meðferðar kærumáls fyrir úrskurðrnefnd velferðarmála.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2021.

Kærandi fékk greiddan örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun á árinu 2021. Samkvæmt þágildandi 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í þágildandi 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með tilteknum undantekningum. Á grundvelli þágildandi 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt þágildandi 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Í 6. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar kemur fram að Tryggingastofnun skuli hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin afli úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda eða frá öðrum þeim aðilum sem getið sé um í þágildandi 40. gr. laganna. Í þágildandi 1. málsl. 1. mgr. 45. gr. laga um almannatryggingar kemur fram að Tryggingastofnun skuli reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er Tryggingastofnun heimilt að endurskoða grundvöll bótaréttar hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum sem hafi orðið á aðstæðum greiðsluþega.

Í þágildandi 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um það að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skal leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins. Bótagreiðsluár er almanaksár. Í þágildandi 12. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar kemur fram að þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. sömu reglugerðar er við útreikning á greiðslum samkvæmt 17.–19. gr. og 21.–23. gr. laganna, sbr. einnig 13. gr. laga um félagslega aðstoð, heimilt að telja atvinnutekjur til tekna bótaþega einungis í þeim mánuði þegar þeirra er aflað. Tryggingastofnun ríkisins skal við endurreikning bótafjárhæða, sbr. 7. mgr., gera samanburð á útreikningi heildargreiðslna hvers mánaðar, annars vegar miðað við 1/12 af atvinnutekjum ársins og hins vegar miðað við atvinnutekjur í þeim mánuðum sem þeirra er aflað. Beita skal þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum og reglugerðarákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Samkvæmt gögnum málsins gerði Tryggingastofnun ráð fyrir að á árinu 2021 fengi kærandi 3.547.236 kr. í tekjur af atvinnurekstri, 3.536.736 kr. í reiknað endurgjald, 141.468 kr. í iðgjald til frádráttar og 3.132 kr. í fjármagnstekjur. Kærandi skilaði inn nýrri tekjuáætlun 26. janúar 2021 þar sem hann gerði ráð fyrir að vera með 1.308.000 kr. í reiknað endurgjald, 52.320 kr. í iðgjald til frádráttar og óbreyttar fjármagnstekjur. Bótaréttindi kæranda voru í kjölfarið reiknuð miðað við breyttar forsendur. Í kjölfar samtímaeftirlits Tryggingastofnunar við staðgreiðsluskrá í ágúst kom í ljós að tekjur kæranda reyndust hærri á árinu en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlun. Var í kjölfarið útbúin ný tekjuáætlun 12. ágúst 2021 þar sem gert var ráð fyrir 1.308.000 kr. í reiknað endurgjald, 2.741.504 kr. í laun, 161.979 kr. í frádrátt vegna iðgjalds í lífeyrissjóð og sömu fjármagnstekjum og áður. Jafnframt var kærandi upplýstur um áætlaða kröfu að fjárhæð 661.563 kr., að frádreginni endurgreiddri staðgreiðslu skatta. Bótaréttindi kæranda voru þá reiknuð á ný. Kærandi skilaði inn nýrri tekjuáætlun 12. október 2021 þar sem hann gerði ráð fyrir 2.000.000 kr. í tekjur af atvinnustarfsemi, 1.340.000 kr. í launatekjur, 53.600 kr. í iðgjald frádráttar og óbreyttum fjármagnstekjum. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 1. nóvember 2021, var kærandi upplýstur um að framlögð tekjuáætlun hefði verið samþykkt að hluta. Samkvæmt nýrri tekjuáætlun gerði stofnunin ráð fyrir 2.000.000 kr. í tekjur af atvinnustarfsemi, 3.468.000 kr. í reiknað endurgjald, 1.340.000 kr. í launatekjur, 192.324 kr. í iðgjald í lífeyrissjóð til frádráttar og 3.132 kr. í fjármagnstekjur. Jafnframt var kærandi upplýstur um áætlaða kröfu að fjárhæð 1.723.410 kr., að frádreginni endurgreiddri staðgreiðslu skatta. Bótaréttindi voru í kjölfarið reiknuð og var niðurstaðan sú að kærandi átti ekki rétt á greiðslum á árinu, að undanskilinni 17.969 kr. orlofsuppbót.

Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2021 reyndust tekjur kæranda á árinu vera 500.000 kr. í reiknað endurgjald, 69.343 kr. í tekjur af atvinnurekstri, 958.836 kr. í laun, að frátöldu 58.357 kr. í iðgjald í lífeyrissjóð og 93.229 kr. í fjármagnstekjur. Niðurstaða endurreiknings Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2021 var sú að kærandi hafi átt rétt á 3.373.488 kr. greiðslum á árinu 2021. Á árinu hafði kærandi fengið 2.770.143 kr. en átti rétt á 3.391.457 kr. Að teknu tilliti til 1.107.016 kr. staðgreiðslu til frádráttar reyndist skuld ársins vera 485.702 kr.

Samanburðarútreikningur í samræmi við áður tilgreinda þágildandi 12. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar leiddi ekki til þess að það væri betra fyrir kæranda að endurreikna út frá mánaðarskiptingu atvinnutekna.

Samkvæmt framangreindu er sú skuld sem myndaðist við uppgjör vegna staðgreiðslu sem Tryggingastofnun skilaði til Skattsins. Tryggingastofnun byggir á því að stofnuninni hafi borið að skila staðgreiðslunni til Skattsins samkvæmt lögum um tekjuskatt og lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þar sem endurreikningur Tryggingastofnunar hafi verið framkvæmdur að lokinni álagningu hjá Skattinum vegna ársins 2021 hafi ekki verið heimilt að nýta persónuafslátt til lækkunar á staðgreiðslu.

Kærandi gerir margvíslegar athugasemdir við skattalega meðhöndlun Tryggingastofnunar á greiðslum hans, meðal annars notkun persónuafsláttar og endurgreiðslu staðgreiðslu skatta. Þá byggir kærandi á því að stofnunin hafi falsað ýmis skjöl og vísar í því sambandi til almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærandi heldur því einnig fram að stofnuninni beri lögum samkvæmt að gefa út greiðsluseðla, þrátt fyrir að ekki sé um greiðslur að ræða.

Í þágildandi 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar segir að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt þeim lögum kveði úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, upp úrskurð í málinu. Sama gildir um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra, sbr. 55. gr. laga um almannatryggingar. Þá gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á, meðal annars um kærurétt til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 14. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Samkvæmt framangreindum ákvæðum getur úrskurðarnefnd velferðarmála einungis fjallað um ágreining vegna ákvarðana Tryggingastofnunar samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Framangreind ágreiningsefni um skattalega meðhöndlun greiðslna og meinta refsiverða háttsemi varða ekki þau lög og því fellur það utan valdsviðs úrskurðarnefndar velferðarmála að úrskurða um þau.

Fyrir liggur að Tryggingastofnun greiddi kæranda tekjutengdar greiðslur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlunum. Þá endurreiknaði stofnunin greiðslurnar með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimti ofgreiddar bætur í samræmi við þágildandi 7. mgr. 16. gr. og 55. gr. laga um almannatryggingar. Úrskurðarnefndin telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við endurreikninginn og uppgjörið hvað varðar bætur almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar. Kæranda er bent á að ágreiningsefni um skattalega meðhöndlun greiðslna frá Tryggingastofnun fellur undir valdsvið skattyfirvalda. Kærandi getur því leitað til Skattsins vegna þess ágreinings.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum kæranda á árinu 2021.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum